gerumBetur_Hvitur.jpg.jpg
 

UMBOÐSMAÐUR BÆJARBÚA

 

Embætti umboðsmanns er óháð stjórnsýslu Mosfellsbæjar og er ætlað að vera vettvangur fyrir þá sem rekast á veggi innan stjórnsýslunnar. Að fyrirmynd sambærilegs embættis er verkefnum embættisins skipt í þrjá hluta.

Í fyrsta lagi þjónar umboðsmaður einstaklinga, lögðaðila eða aðra hagsmunaaðila sem telja á sér brotið. Hjá umboðsmanni geta þessir aðilar fengið óháða og faglega ráðgjöf. Umboðsmaður mun veita lögfræðilega ráðgjöf og leiðbeiningar á grundvelli málsins sem eðli málsins samkvæmt geta verið margvísleg. Eftir atvikum mun umboðsmaður reyna að leysa málin með sáttamiðlun eða með því að aðstoða aðila við endurupptökubeiðnir, kærur eða aðrar þær leiðir sem eru færar á stjórnsýslustigi til úrlausnar málsins.

Í öðru lagi geta starfsmenn Mosfellsbæjar leitað til umboðsmanns vegna einstakra mála svo sem til að koma á framfæri upplýsingum um mistök eða vanrækslu. Eins munu starfsmenn  geta tilkynnt umboðsmanni um um óeðlileg afskipti kjörinna fulltrúa af einstaka málum. Trúnaður og friðhelgi skal gilda um allar slíkar tilkynningar enda er mikilvægur liður í því að koma í veg fyrir spillingu að starfsmenn hafi óháðan vettvang til að koma á framfæri slíkum málum.

Í þriðja lagi á umboðsmaður að geta að eigin frumkvæði hafið kannanir á málefnum, hvort sem er málum einstaklinga eða á málum sem varða alla íbúa svo sem hvort að Mosfellsbær uppfylli kröfur sem til bæjarfélagsins eru gerðar um hollustuhætti eða aðgengi.