gerumBetur_Hvitur.jpg.jpg
 

STJÓRNSÝSLA OG FJÁRMÁL
 

Við viljum gera betur í stjórnsýslu Mosfellsbæjar og tryggja að hún sé opin og fagleg þar sem almannahagsmunir ganga fyrir sérhagsmunum. Gagnsæi er forsenda þessa að íbúar beri traust til stjórnsýslunnar. Til þess að ná þessu takmarki þá viljum við grípa til eftirfarandi aðgerða.

 • Við viljum setja á fót embætti umboðsmanns bæjarbúa sem getur veitt íbúum og fyrirtækjum upplýsingar um réttindi sín ásamt því að veita aðstoð í samskiptum við stjórnsýsluna. Umboðsmaður veitir íbúum lögfræðilega ráðgjöf, hann tekur á móti ábendingum frá starfsmönnum og er þannig mikilvægur hlekkur í því að koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaður getur einnig hafið rannsóknir á einstökum eða almennum málum að eigin frumkvæði. Nánari lýsingu á umboðsmanni bæjarbúa má finna hér.

 • Við viljum að bæjarstjóri sé faglega ráðinn.

 • Við viljum auka gagnsæi í stjórnsýslunni með því að bæta fundargerðir bæjarins þannig að í þeim sé gerð grein fyrir heildarferli máls, grundvöllur fyrir ákvörðun birtur ásamt rökstuðningi og bókunum séu þær gerðar.

 • Við viljum bæta rafræna þjónustu og gera íbúum og öðrum hagsmunaaðilum kleift að fylgjast með stöðu þeirra mála sem eru til afgreiðslu, þar á meðal skal staða á biðlistum eftir þjónustu vera aðgengileg í íbúagátt.

 • Við viljum auka aðkomu bæjarbúa að ákvörðunartöku með því að halda opna umræðufundi, setja á fót samráðsvettvang um stærri mál og gera íbúum kleift að krefjast kosninga um einstök mál.

 • Við viljum innleiða vísitölu félagslegra framfara (VFF) og fylgja þar með fordæmi Kópavogsbæjar. Þessi aðferð gerir okkur kleift að fylgjast með því hvort að fjármunum bæjarbúa sé vel varið og tryggir gagnsæi í stjórnsýslunni. Nánari upplýsingar um VFF má finna hér.

 

Við lítum svo á að íbúar bæjarins eigi rétt á því að vita hvernig fjármunum þeirra er ráðstafað. Við viljum gera betur þar sem gagnsæi og heiðarleiki eru mikilvægustu stoðirnar þegar kemur að fjármálum bæjarins.

 • Við viljum lækka álögur á íbúa í takt við lækkun skulda.

 • Við viljum bæta þekkingu íbúa á stöðu fjármála bæjarins og auka traust með því að opna bókhaldið.

 • Við viljum fylgja fordæmi Kópavogsbæjar í ítarlegri og myndrænni framsetningu bókhaldsins þar sem íbúar geta séð með skýrum og sundurliðuðum hætti hvernig fjármunum bæjarins er ráðstafað.

 • Öll þjónustukaup skulu vera opinber og skýrt skilgreind í bókhaldi bæjarins.

 • Við munum sýna ábyrgð í fjármálum, bæta innra eftirlit og sameina innkaup með öðrum sveitarfélögum sé þess kostur.

 • Við munum setja fram skýrar verklagsreglur um útboð og skulu málefnaleg rök vera færð fyrir öllum útboðsskilmálum.