gerumBetur_Hvitur.jpg.jpg
 

Gerum Mosfellsbæ að betri bæ!

Með framboði Viðreisnar viljum við gefa íbúum Mosfellsbæjar kost á því að kjósa frjálslynt fólk í bæjarstjórn. Við erum Mosfellingar eins og þið og okkur finnst Mosfellsbær frábær bær að búa í en við viljum gera betur og byggja bæinn okkar upp í samvinnu við ykkur. Hér eru áherslur okkar í hnotskurn.

 

 

Stjórnsýsla og fjármál

Við viljum gera betur í stjórn bæjarins með því að auka gagnsæi og opna bókhald bæjarins. Íbúar bæjarins eiga rétt á því að vita hvernig peningunum þeirra er ráðstafað.

Við viljum auka aðkomu bæjarbúa að ákvörðunartöku auk þess að bæta upplýsingagjöf til íbúa, m.a. að auka gagnsæi varðandi stöðu á biðlista og færa ítarlegri fundargerðir.

Við munum sýna ábyrgð í fjármálum, bæta innra eftirlit og sameina innkaup með öðrum sveitarfélögum sé þess kostur.

Við viljum að bæjarstjóri sé faglega ráðinn.

Við viljum setja á fót embætti umboðsmanns bæjarbúa sem getur veitt íbúum og fyrirtækjum upplýsingar um réttindi sín ásamt því að veita aðstoð í samskiptum við stjórnsýsluna.

Við viljum setja vellíðan og hagsæld íbúa í forgang og mæla vísitölu félagslegra framfara (VFF/SPI) í því skyni. Þessi vísitala gerir okkur kleift að sjá hvort að fjármunum bæjarins sé vel varið.

 

Skóla- og dagvistunamál

Við viljum gera betur í skólamálum og tryggja að börnum og starfsfólki líði vel, auk þess að styðja betur við við skólastarfið og bæta aðbúnað kennara og nemenda.

Við teljum tímabært að móta skólastefnu til framtíðar og endurskoða stefnu bæjarins í uppbyggingu skóla í samráði við alla hagsmunaaðila.

Við teljum nauðsynlegt að bregðast við bráðavanda Varmárskóla og gera úttekt á skólabyggingunum.

Við viljum hefjast handa við byggingu skóla í Leirvogstungu fyrir börn 1-9 ára.

Við viljum brúa bilið milli sumars og vetrar hjá yngstu grunnskólabörnunum og bjóða upp á sumarfrístund í öllum skólum ásamt akstri á þau sumarnámskeið sem í boði eru í bænum.

Við viljum bjóða foreldrum ungbarna val á því hafa börn sín hjá dagforeldri eða á ungbarnadeild í leikskóla, með því að fjölga ungbarnadeildum og hækka niðurgreiðslu vegna barna hjá dagforeldri.

 

Íþrótta- og æskulýðsmál

Við viljum ekki að börn upplifi mismunun vegna fátæktar eða félagslegra aðstæðna. Tryggja verður jöfn tækifæri barna til náms og tómstundastarfs eins og kostur er.

Við viljum gera betur fyrir börn með því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Mosfellsbæ.

Við viljum gera betur í íþrótta- og æskulýðsmálum með því að skipuleggja íþróttamannvirki og aðstöðu til framtíðar og gera hana framúrskarandi.

Við teljum brýnt að bæta strax félagsaðstöðu Aftureldingar.

 

Velferðarmál

Við viljum gera betur í málefnum fatlaðra og tryggja að lífskjör og tækifæri fatlaðra séu til jafns við aðra bæjarbúa. Við viljum bæta ferðaþjónustu fatlaðra. Við viljum vera framúrskarandi í gerð NPA samninga og koma á notendaráði fatlaðra.

Við viljum gera betur í málefnum aldraðra með því að efla atvinnuþátttöku þeirra og upplýsa eldri borgara um réttindi sín og þjónustuleiðir sem þeim standa til boða.

Við viljum gera betur fyrir aldraða með fjölbreyttari félagsstarfi, fleiri plássum í dægradvöl og bættri heimaþjónustu til aldraðra.

 

Umhverfis- og skipulagsmál

Við viljum gera betur í skipulagsmálum með því að einfalda ferla, auka gagnsæi og tryggja að ákvörðunartaka sé fagleg og málefnaleg.

Við viljum þrýsta á lausnir sem létta á umferðarþunga frá Mosfellsbæ og austurhluta Reykjavíkur.

Við viljum gera betur með því að móta atvinnustefnu með framtíðarsýn sem gengur út á að í Mosfellsbæ verði hægt að starfa og sækja þjónustu.

Við viljum gera betur í umhverfismálum. Við viljum bæta flokkun sorps og gera íbúum kleift að flokka lífrænan úrgang. Við viljum gera betur í viðhaldi og hreinsun á sameiginlegum opnum svæðum bæjarins.

Við viljum gera betur í mengunarvörnum, vinna markvisst að því að draga úr mengun, t.d. með því að þrífa betur götur og stíga bæjarins og mæla loftgæði í bænum að staðaldri.

 

Við viljum gera betur fyrir Mosfellsbæ, fyrir ykkur!