gerumBetur_Hvitur.jpg.jpg
 

SKÓLA- OG DAGVISTUNARMÁL

 

Menntun er undirstaða jafnréttis, jafnra tækifæra og velferðar. Í samfélagi þar sem fjórðungur bæjarbúa er á grunnskólaaldri verða málefni dagvistunar, skóla og tómstunda sjálfkrafa í brennidepli hjá stórum hluta bæjarbúa. Við viljum einfalda líf foreldra í Mosfellsbæ með lausnamiðuðum nýjungum. Verkefnið er ögrandi og við viljum beisla tækifærin sem þessu fylgja og móta metnaðarfullt fræðslu- og tómstundastarf sem tekur mið af þörfum íbúa Mosfellsbæjar.

Það er okkur hjartans mál að gera betur í skólamálum, tryggja dagvistun og að börnum og starfsfólki líði vel. Við viljum við leggja áherslu á að bjóða börnum bæjarins upp á nútíma tækni og aðbúnað til að geta tekist á við verkefni sín í takt við þann heim sem við búum í.

 • Við teljum tímabært að móta skólastefnu til framtíðar og endurskoða stefnu í uppbyggingu skólamannvirkja í samráði við alla hagsmunaaðila.

 • Við teljum nauðsynlegt að leysa bráðavanda Varmárskóla og gera allsherjar úrbætur á skólabyggingum til samræmis við markmið um heilsueflandi samfélag og kröfur um nútíma skólahald.

 • Við viljum byggja skóla í Leirvogstungu fyrir börn 1-9 ára.

 • Við viljum skapa jarðveg fyrir sjálfstætt starfandi skóla í Mosfellsbæ til þess að auka fjölbreytni í skólastarfi, veita aðhald og bjóða börnum og foreldrum upp á fleiri valkosti í námi.

 • Við viljum brúa bilið milli sumars og vetrar hjá yngstu grunnskólabörnunum og bjóða upp á heildstætt skólaár, að fyrirmynd Krikaskóla, í öllum skólum ásamt akstri á þau sumarnámskeið sem í boði eru í bænum. Starfsfólk frístundar er ráðið í heilsársstöðu sem eyðir óvissu og eykur metnað og faglegt starf.

 • Við viljum bjóða foreldrum ungbarna val á því hafa börn sín hjá dagforeldri eða á ungbarnadeild í leikskóla, með því að fjölga ungbarnadeildum og hækka niðurgreiðslu vegna barna hjá dagforeldri.

 • Við viljum koma til móts við dagforeldra sem vilja starfa saman 2 eða fleiri og bjóða upp á húsnæði sambærilegt því sem er hjá gamla gæsluvellinum.

 • Við viljum auka fjölbreytni í skólastarfi með með sveigjanlegri vinnutíma, auknu samstarfi og meira flæði milli skóla og skólastiga.

 • Við viljum koma til móts við börn sem búa við skort með því að tryggja þeim máltíðir í skóla og þátttöku í tómstundastarfi án endurgjalds. Horft verður til verkefna eins og “Tinnu” í Reykjavík til að koma móts við efnaminni foreldra.

 • Við viljum standa vörð um hefð fyrir öflugu tónlistarlífi í Mosfellsbæ og tryggja grósku, sköpun og þróttmikið starf í Listaskólanum.

 • Við viljum styðja við og efla enn frekar starfsemi í Bólinu félagsmiðstöð og Vinnuskólanum með fjölbreyttum hugmyndum og verkefnum sem styðja áhuga, þroska og félagslegar þarfir ungmenna. Við viljum virkja ungmennin sjálf í hugmyndavinnu fyrir úrræðið.

 • Vinnuskólinn ætti að koma að verkefnum bæjarins með víðtækari hætti, t.d. í leikskólum, sumarfrístund og margskonar viðhaldsverkefnum í skólabyggingum bæjarins.

 

Almenn stefna Viðreisnar í Mennta,- félags og tómstundamálum:

Menntun er undirstaða jafnréttis, jafnra tækifæra og velferðar í samfélagi og forsenda framþróunar. Hvernig við hlúum að menntun er öflug vísbending um sjálfsmynd þjóðar og hvert hún stefnir í framtíð. Menntastofnanir og menntakerfi eiga að fylgja því leiðarstefi að veita öllum einstaklingum tækifæri til þess að afla sér þekkingar og skilnings, þroska sína hæfileika og öðlast hæfni til að móta sér farsælt líf sem sjálfstæðir einstaklingar. Í því felst að tryggja frelsi einstaklinga til að fara á sínum hraða í gegnum menntakerfið og gera öllum stoðum menntakerfisins jafnhátt undir höfði. Hæfni á ávallt að meta að verðleikum óháð því hvar hennar er aflað. Menntakerfi á að stuðla að framgangi þeirrar fjölþættu þekkingar, hugviti og framtakssemi sem sérhvert samfélag þarf á að halda til þess að standa undir verðmætasköpun, velsæld og auðugu menningarlífi. Nám mótar einstaklinga til frambúðar, lífssýn þeirra og atvinnutækifæri. Stefna í menntamálum á ævinlega að byggjast á hugmyndum um jöfn tækifæri og félagslegan hreyfanleika.

Nánar hér: https://vidreisn.is/is/malefni/mennta-felags-og-tomstundamal